Mercedes-Benz 817L árgerð 1991
|
Ég hef lengi haft eitthverja ótrúlega þörf fyrir að eiga bílaflutningabíl og var í 9 ár búinn að eiga einn Mercedes-Benz 709D árgerð 1991 með föstum flatpalli og sliskjum. Hann reyndist mér svosem ágætlega, en hann var farinn að kalla svolítið á að vera tekinn töluvert í gegn og einnig fannst mér hann of lítill, vélarvana og alls ekki líkaði mér vel þessi fasti sliskjupallur. Ég ákvað því að selja hann og finna mér annan bíl. Sú leit reyndist reyndar þegar á hólminn var komið ekki eins auðveld og ég hélt að hún yrði. Þjóðverjar hafa ótrúlegan húmor fyrir sliskjupöllum og eða mjög kjánalega útfærðum bílaflutningapöllum. Ég keypti því einn Mercedes-Benz 814L árgerð 1989 grindarbíl í Þýskalandi og ætlaði að smíða á hann bílaflutingapall eins og ég vildi hafa hann. Sá bíll var rétt mátulega kominn á skerið þegar ég fann þennan 817L bíl með palli og öllu saman og það var ljóst að hann var þegar allt var reiknað til enda ódýrari og raunhæfari kostur. Þennan bíl keypti ég því í Þýskalandi í febrúar 2016 til að flytja hann inn. Bíllinn kom til landsins í mars 2016 og reyndist vera virkilega gott eintak a svona bíl og hefur staðið sig eins og hefja í þeim verkefnum sem honum hafa verið falin. Alltaf má þó gera gott betra og er ætlunin að pósta inn myndum af lagfæringum og betrumbótum eftir því sem við á. |
Þetta er fyrsta myndin sem ég sá af bílnum er hann var auglýstur á mobile.de í Þýskalandi Séð inn í bílinn. Myndin er tekin af mobile.de meðan bíllinn var enn í Þýskalandi
Við upphaf ferðar frá Nordhorn til Hamborgar. Góður þýskur vinur minn hann Andreas keyrði bílinn fyrir mig til skips. Hér er bíllinn að kveðja Auto Service Jansen, fyrirtækið sem átti bílinn á undan mér.
Hér er bíllinn kominn í portið hjá Eimskip í Hamborg
Myndin er tekin 16. mars 2016 skömmu eftir að náð var í bílinn til Eimskipa í Reykjavík
Á meðan bíllinn var á leiðinni til landsins dundaði ég mér við að "photoshopa" merkingarnar af
Skráningarskoðun. Bílinn þar með kominn á íslensk númer
Uppfært 15.8.2017 Þrátt fyrir að bíllinn væri að upplagi góður voru nokkur atriði sem mátti laga og gera betri eins og gerist og gengur með gamla bíla. Að vori 2017 var tekin ákvörðun um að taka bílinn töluvert í gegn og laga í honum ýmis atriði sem betur mátti fara. M.a. var ákveðið að setja nýja glussakistu fyrir pallinn svo fjarstýra mætti öllum hreyfingum og einnig var ákveðið að taka bæði hús og grind og mála það allt upp á nýtt og skipta um lit á bílnum. Skemmst er frá því að segja að sú vinna vatt upp á sig og varð að lokum að stórkapphlaupi við að klára hann fyrir Landsmót Fornbílaklúbbs Íslands sem haldið var á Selfossi síðla júnímánaðar 2017, en það rétt tókst, örfáum klukkutímum fyrir brottför. Hér á eftir fer myndasería af þessari lagfæringarvinnu og ætlum við að láta myndirnar tala sínu máli að þessu sinni.
Nánari umfjöllun mögulega að vænta síðar
|