Mercedes-Benz 308D árgerð 1990 gerður upp

Eitt og annað / Innrétting

------

Skipulagning verkefnis

Þegar gera á upp bíl er mikilvægt að reyna að vera svolítið skipulagður. Partabækur eru oft mjög hjálplegar í því sambandi. Í þennan bíl var keypt mikið af smáhlutum og til að koma í veg fyrir að það væri ekki verið að kaupa sama stykkið oft voru útprentaðar partamyndir notaðar til að merkja við hvað væri búið að fá nýtt og hvað ekki.

Varhlutunum sem búið var að kaupa var svo raðað í grúppur eftir staðsetningu hlutsins á partamynd.

Með því að gera þetta svona var allt á sýnum stað þegar að samsetningu kæmi og ekki þarf að leita að neinu.

 

Felgur og hjólbarðar

Uppfærsla 28.2.2017

Felgur bílsins voru eins og gefur að skilja nokkuð veðraðar og ljótar, en markmiðið var að gera þær eins og nýjar og nota orginal felgurnar. Það var því byrjað á að láta sandblása þær og síðan þurfti að herma eftir því útlit sem upphaflega var. Þó svo að dekkin á bílnum hafi verið ágæt og ekki mikið slitin var ákveðið að kaupa ný dekk, ekki þá sýst til þess að geta einnig keypt varahjólbarða í stíl við dekkin sem væri undir bílnum, rétt eins og þetta var þegar bíllinn var afhentur nýr.

Það gleymdist að taka mynd af felgum bílsins áður en farið var að vinna í þeim. Ég átti nokkrar felgur, felgurnar undan bílnum, eina varadekksfelgu sem kom með honum og nokkrar aðrar. Allar felgurnar sem ég gerði upp voru þær sem komu með bílnum upphaflega og voru sumar jafnvel bara skrambi góðar miðað við aldur og að hafa augljóslega aldrei verið málaðar eða lagaðar neitt. Á netinu fann ég þessa svo þessa mynd, ásamt næstu tveim, sem eru af felgu sem lítur út nokkuð svipað því hvernig felgurnar undan bílnum voru þegar búið var að taka dekkin af.

Felgur af svona bílum eru í grunnin svartar og þegar felguframleiðandinn Südrad var búinn að framleiða þær fyrir Mercedes-Benz voru þær litaðar í svörtu og hugmyndin að hafa þær þannig á litinn á bakvið heila hjólkoppa. Ef þú hinsver pantaðir bílinn ekki með heila hjólkoppa tóku þeir felgurnar og máluðu framhliðarnar á felgunum silfurgráar, en höfðu bakhliðina áfram bara svarta. Á þessai mynd sést hevrnig grái liturinn er látinn fara pínu inn í gjörðina við málun.

Hér sést að bakhluti felgunnar hefur verið svartur (áður en tortímingarbrúnnkan settist að þarna)

 

En þá að felgunum undan bílnum... því það gleymdist ekki að taka myndir af vinnuferlinu við að mála og laga þær til. Eftir sandblástur var farið með felgurnar og þær semsagt pólíhúðaðar svartar til að setja þær í réttan grunnlit.

Og það stóð ekki til að hafa heila hjólkoppa, enda var það sjaldgæft og rauna bara eftirágert á þessum bílum. Bíllinn var orginal með gráa framhlið á felgunum og því var farið í að matta og í leiðinni slétta pólýhúðunina á framhliðum felgnanna.

Og hér er búið að pússa þessa alveg rennislétta og hún tilbúin til málunar.

Hér er verið að setja gráan epoxy grunn á felgurnar, bæði til að fá betri viðloðun við pólýhúðunina og einnig til að mynda ljósan bakgrunn fyrir silfurgráa litinn sen átti að setja á þær.

Grunnurinn kominn á og þá er bara að leyfa honum að þorna svo hægt sé að mála litnum á.

Það er ekki oft sem maður áætlar efnisnotkun svona nákvæmlega. Þegar ég fór að gá hvað væri mikið eftir af grunni var það hálfur flöskutappi, eða semsagt ekki neitt.

Og hér er búið að mála felgurnar silfurgráar á framhliðinni.

Takið eftir hvernig grái liturinn er látinn fara inn á svarta litinn á miðri gjörðinni þar sem dekkið kemur og hylur hvernig felgan er í raun máluð. Svona var þetta orginal á felgunum, eins og sjá má á mynd hér fyrir ofan af óuppgerðri felgu. Svona skal þetta því haft, en þetta er svona eitt af þeim séviskuatriðum sem aldrei mun sjást, en við vitum af því.

Framhliðin rennislétt og flott, semsagt tilbúið fyrir dekk, en hvaða dekk?

Ég var búinn að leita mjög lengi að dekkjum sem væri skemmtilega orginal að sjá, en flest dekk í réttri stærð sem fáanleg voru áttu það sameiginlegt að vera mjög ósannfærandi í útliti, bæði hvað varðaði allt of stóra og klossaða hliðarstafi, útflúrað hliðarskraut og með allt of nútímalegt munstur. Loks fann ég á netinu þessi dekk og þau líta ákaflega 80-90's út. Á þeim stendur Extra Steel - Radial sem þótti nú ekkert smá kúl áletrun hér í denn. Munstrið er líka næstum því kópía af því munstri sem sjá má í gömlum sölubæklingum yfir þessa bíla, en ég á nokkra slíka til að styðjast við í uppgerðinn.

Hér er svo búið að setja dekkin á felgurnar og þetta því tilbúið til að fara undir bílinn þegar uppgerðinni er lokið. Sjáiði sérviskuna með gula púnktinn. Sum dekk eru svona merkt, en þau eru forjafnvægisstillt í framleiðslunni og þetta á að vera þyngsti punktur dekksins og er því ætlast til að hann sé settur þar sem ventillinn er því þar er felgan mögulega léttari en annarstaðar í hringnum. Sé þetta haft svona þarf mögulega að nota minni eða léttari týpur af jafnvægisstillingarlóðum en ella þarf á felguna. Mér var reyndar bent á á hjólbarðaverkstæðinu að þetta ætti bara við um nýjar felgur og að liturinn hyrfi nú fljótt af dekkinu, en það væri samt alveg sjálfsagt að láta þessa sérvisku eftir mér ef ég endilega vildi.

-------------

Merkingar og miðar

Uppfært 16.3.2017

Hér var eitt atriði sem olli smá heilabrotum. Af því að þetta er sendibíll er engin í heiminum að bjóða upp á svona límmiðasett eins og fæst fyrir margan fólksbílinn. Þetta er semsagt gamall og ryðgaður hjálparkútur fyrir bremsurnar, og hvort sem hann yrði málaður eða keyptur nýr var þessi miði vandamál.

Hér er nú samt búið að finna lausn á því með Brother merkiprentara sem ég nota í vinnunni og var keyptur hjá Prentvörum. Þeir útveguðu fyrir mig prentborða í hann í sannfærandi lit og ég föndraði við að útbúa miðann.

Það var fenginn nýr kútur í bílinn og á honum kom þessi hvíti miði, sem ekki var auðvelt að plokka af..!

Það tókst nú samt á endanum og hér er hann farinn af.

Og hér er blái miðinn sem ég útbjó kominn á nýja kútinn. Nokkuð vel heppnað þó ég segi sjálfur frá.. HEHE

Uppfærsla 17.7.2017

Þessi merkispjöld komu af afturdrifinu og framhjólabitanum. Þetta var endurgert hjá Stimplagerðinni.

Þessir límmiðar koma í tröppuskápinn bílstjórameginn. Þeir voru svo illa farnir sem voru í bílnum að það var eiginlega ekki eftir neinu að fara. Ég komst hinsvegar í flak af svona bíl og gat skorið boddýbút, með miðunum á, úr flakinu. Endurgerð miðanna var gerð af Stimplagerðinni.

-------------

Verkfæri

Uppfærsla 17.7.2017

Verkfærasett bílsins var að mestu týnt og það sem var eftir af því var eiginlega bara ónýtt rusl. Til allrar hamingju þóttust þeir hjá Benz eiga til verkfæratösku og verkfæri í hana, og svona leit það sett út þegar það var tekið upp úr kassanum.

-------------

Innrétting

Uppfærsla 16.3.2017

 

Mælaborðið var heillegt að sjá, en krafðist samt smá athyggli. Myndin er tekin svolitlu áður en bílinn er tekinn í uppgerð og mælisstaðan er nokkuð athygglisverð í ljósi þess að þessir bílar eru sumstaðar kallaðir 207-410.

Hér er byrjað á að taka mælana úr, en það þarf að mála á þeim svarta ramman.

Og hér er verið að þrífa upp vínilinn. Mælaborðinu var svo pakkað inn í kassa að því loknu og geymt þannig þangað til tími gæfist að setja það í aftur þegar búið væri að mála bílinn.

Stundum taka hlutirnir svolítið óvænta stefnu og ljóst að hér var pakkadagur. Þegar ég fór að spá í hvað væri mikil vinna og hvernig best væri að gera upp mælana og annað úr mælaborðinu fór ég að athuga hvað þetta dót kostaði........

.....og varð fljótlega ljóst að uppgerð mælanna myndi aldrei borga sig, svo lítið kostuðu þeir. Mælarnir, viðvörunarljós og gler í þau var því bara pantað nýtt. Hraðamælinn þarf hinsvegar að gera upp því að hann fæst ekki lengur frá Benz.

Hér sést fyrir og eftir notkun á Gollit Diamant plasthreinsi. Þetta er algert snilldarefni til að þrífa plast, vínil og gúmmí.

-------------

Smáhlutir

Uppfærsla 16.3.2017

Það er ýmis verkefnin sem falla til og þegar maður verður leiður á eitthverjum áföngum uppgerðarinnar er gott að geta bara gert eitthvað annað eins og að flokka og hreinsa alskyns smádót.

En hvernig á aðgera þetta þannig að sómi sé af? Í alminnilegri uppgerð þarf í raun að hugsa um hverja einustu skrúfu eins og það heitir og það í orðsins fyllstu merkingu er að gerast hér. Þarna er verið að taka saman fullt af smáhlutum, aðalega boltum og skrúfum og undirbúa það til að vera sent til Þýskalands í endurhúðun, en þar er þetta tekið og sýruþvegið og zinkhúðað upp á nýtt með upprunalegri áferð. Þessi aðferð gefur þessum hlutum nýtt líf og boltar og svona smádót mun líta út eins og það hafi allt verið keypt nýtt.

Hér er svo önnur mynd af stærri hlutum sem einnig voru sendir út í endurhúðun.

Til að auðvelda flokkun þegar þetta kæmi til baka var allt ljósmyndað og merkt hvað væri hvað. Það hefði verið óðs manns æði að henda bara öllu í stórann pappakassa og svo yrði þetta endalaus höfuðverkur að finna út úr.

Einnig þurfti að huga að þessu. Mér var ljóst að þessi límmiði myndi ekki lifa af hreinsun og endurhúðun. Það varð því að finna eitthverja leið til að búa til nýjan. Þessi tilraun tókst mjög vel og þá var hægt að senda arminn með öllu hinu dótinu.

Uppfærsla 17.7.2017

Og hér er armurinn kominn til baka frá endurhúðun í Þýskalandi og límmiðinn góði kominn á sinn stað. Nokkrar fyrirspurninr hafa borist um það hvaða armur þetta sé, en þessi armur er neyðarádrepari sem er utan á olíuverkinu á vélinni í bílnum. Tilgangur hans er að það sé hægt að stöðva vélina ef afdreparabúnaður bilar og einnig fyrir viðhaldsmenn til að geta drepið á mótor, ef þess þarf, án þess að þurfa að teygja sig upp í svissinn á bílnum til að gera það.

Svona kom allt dótið, ósorterað í plastpokum.

Það var töluverð vinna að flokka þetta, en það hafðist að lokum og forflokkun sem og góðar og margar ljósmyndir teknar áður en þetta fór voru klárlega hjálp í þeirri vinnu. Það borgar sig að leggja mikla vinnu í undirbúning ef þetta á ekki að fara í eitthvað algert rugl.

 

 

Framhald síðar

Áfram í næsta kafla

Til baka á forsíðu

 

Í upphafi

Yfirbygging

Sprautun

Vélbúnaður

Eitt og annað, innrétting

Samsetning

Saga

Að endingu

Síðast uppfærð 23.12.2016

 

© Einstakir bílar