Saga.

 

Hér er á ferðinni virkilega sjaldgæfur bíll. Það var í október árið 1956 að Ponton Coupe 220S bílarnir frá Mercedes-Benz litu fyrst dagsins ljós og þá höfðu eingöngu örfá eintök verið smíðuð sem formlega áttu að fara í sölu í upphafi árs 1957. Blæjuútgáfan hafði þá verið í smíðum síðan í júlí sama ár. Eftir því sem komist er næst er þessi bifreið eitt af þeim kynningareintökum sem smíðuð voru 1956. Tölur um fjölda smíðaðra bíla þetta ár eru ekki nægilega vel þekktar að öðru leiti en 297 eintök af bæði blæju og coupe útgáfunni voru smíðuð þetta ár, en líkum má að því geta að um 50-60 eintök af coupe bílum hafi því verið að ræða. Í heildina voru eingöngu 2081 eintak framleitt af coupe boddyinu. Þar af voru 1251 af svona 220S coupe, og svo 830 eintök af 220SE með beinni innspítingu, en hún kom 1958 fyrst. Heildarframleiðsla blæjubílanna var svo 3290 eintök og því aðeins framleidd 5371 ökutæki þessarar gerðar, blæju eða coupe. Sem líklega skýring á lítilli framleiðslu má kanski helst nefna að þessir bílar voru að miklu leiti handsmíðaðir og þeir voru einnig mjög dýrir. 1956 kostaði svona coupebíll 21.500 þýsk mörk og sama verð var á blæjugerðinni á meðan að fjögurra dyra útgáfan kostaði 12.500 mörk. Það var því hægt að fá næstum því tvo fjögurra dyra fyrir einn svona bíl. Seinustu eintök þessara fágætu bíla voru svo framleidd árið 1960.

Saga þessa bíls er í megindráttum sú að hann kemur til landsins árið 1963 eða 64 og að hann hafi þá verið svartur að lit. Bíllinn var innfluttur af manni sem ekki gat eitthverra hluta vegna leyst hann út úr tolli og því var hann eftir 2-3ja ára stöðu á bakkanum boðinn upp í Tívolíportinu svokallaða árið 1966. Nokkrir voru um hituna að reyna að ná í þennan bíl á uppboðinu og fer sögum að því að loks hafi Ketill Axelsson, kenndur við verslunina London, hreppt hnossið nokkru eftir að viðstöddum mönnum var farið að blöskra upphæðir þær sem boðnar voru í gripinn. Bíllinn var á þessum tímapúnkti nokkuð farinn að láta á sjá og þá aðallega eftir stöðuna á höfninni. Voru frambretti hans meðal annars nokkuð lasleg og ljóst að það þurfti að laga hann svolítið til hvað lakkið varðaði. Ketill lét taka bílinn í gegn og fékk á hann ný frambretti frá Þýskalandi sem að sögn Jóns sonar hans voru óhemjudýr á sínum tíma. Við svo búið lét hann mála bílinn hvítan. Rétt fyrir 1970 líklega 68 eða 69 er bíllinn svo seldur Þórarni Jónssyni (Póra í Laxnesi) og á hann bílinn allt til ársins 1971 er vélarbilun kom upp í bílnum. Þá kaupir Jón Ketilsson sonur Ketils Axelssonar bílinn og skiptir um vél í bílnum og hóf einnig að laga á honum lakkið sem enn og aftur var farið daprast. Í því ástandi selur hinsvegar Jón bílinn Vigfúsi nokkrum í Skálagerði sem fékk Jónas félaga sinn á Mánabraut í Kópavogi til að klára á honum sprautuvinnuna. Eitthvað gekk það brösulega því Jónasi varð á að valda eitthverju tjóni á krómlistum sem á bílnum voru og urðu eitthver ósætti vegna þess og ákvað því Vigfús bara að selja bílinn árið 1975. Kaupandinn, Elías R Gissurarson tók bílinn og setti hann beint í geymslu og þessi sprautuvinna var þannig aldrei kláruð. Elías varveitti bílinn nokkuð vel í því ástandi sem þarna var skilið við hann, og hann er enn í enn þann dag í dag. Hann hugsaði alltaf um að geyma hann inni til að hann myndi ekki glatast. Það má því með sanni segja að hann hafi bjargað þessum bíl frá örlögum flestra bíla hér á landi, en það var nánast viðtekin venja þjóðfélagsþegna okkar að nýta út úr ökutækjum til fulls og farga þeim svo hversu merkilegir sem þeir væru. Virðing fyrir merkilegum fortíðargripum var fáheyrð á þeim árum. Elías seldi loks bróður sínum, Hákoni, bílinn á vordögum 2006. Hákon ætlaði sér að gera bílinn upp en ákvað að það færi betur á að það yrði gert af mönnum sem vanir væru slíku og þyrftu ekki að kaupa alla vinnu við það af öðrum. Hann seldi því núverandi eiganda bílinn sumarið 2006. Nú þegar er uppgerð þessa bíls er hafin með skipulagningu og öflun varahluta i bílinn og ljóst má þykja að henni lokinni verður þessi mubla einn af glæsilegustu og merkilegustu fornbílum á Íslandi. Merkilegast af öllu þó er að svona sjaldgæfur bíll skuli hafa verðveist hér á landi.

Við samantekt á þessari sögu bílsins er vitnað í frásagnir Jóns Ketilssonar, Skúla Ólafssonar, Guðfinns Halldórssonar og Hákonar Gissurarsonar og kann undirritaður þeim bestu þakkir fyrir veittar upplýsingar. Einnig fylgdu bílnum eitthvað af gögnum sem hægt var að styðjast við.

 

Við komum að uppgerðinni síðar.

Kveðja

Rúnar Sigurjónsson

 

Til baka á forsíðu